miðvikudagur, 7. október 2009

7. Október 2009 - Bangalore, Indland

Ég er komin upp á hótelherbergi í Bangalore á Indlandi eftir að eyða einum degi í háloftunum á leiðinni hingað frá Reykjavík. Ég er sem sagt komin til Indlands aftur eftir rúmlega ár heima á Íslandi en mun nú að þessu sinni aðeins stoppa í eina og hálfa viku.

Við Áslaug ætlum að vinna með fólkinu okkar hér á Indlandi auk þess að fara á Scrum Master námskeið næstu tvo daga hér í Bangalore. Það er hálf einkennilegt að fljúga alla leið til Indlands til að fara á námskeið hjá ameríkana, en við áttum leið hjá.

Það er einkennileg tilfinning að vera á Indlandi án prinsanna minna. Indland hefur hingað til verið æfintýri okkar þriggja en að þessu sinni lúra þeir heima í holunni okkar á Tómasarhaganum þessar elskur. Það er gaman að vera komin aftur, aðalgamanið verður að fylgjast með áslaugu sem horfði sposk út um gluggann á leiðinni áðan og sagði "það er eins og það sé allt hálf klárað hérna" og hitti naglann á höfuðið:)

Áslaug á afmæli í dag, í fyrra héldum við upp á afmælið hennar í Hong Kong með miklum látum. Sjáum til hverju við finnum upp á í dag.

Ég bið að heilsa í bili,
Ella

fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Við þökkum áhorfið

Jæja, síðasti vinnudagurinn í Hyderabad að enda. Við pökkuðum (já ok, sáum um að 5 menn pökkuðu) dótinu okkar í gær og því er nokkuð tómlegt heima.

Við eigum von á góðum gestum í kvöld en vinir okkar sem við höfum kynnst hér undanfarna mánuði ætla að sulla niður nokkrum bjórum með okkur og hlæja í síðasta sinn í bili að þessum vitleysingjum hérna í indlandi:)

Takk fyrir áhorfið, og öll commentin. Það var verulega gaman að fá að heyra í ykkur annað slagið og okkur hlakkar mikið til að hitta ykkur öll heima á fróni eftir rúmlega viku.

Við fljúgum annað kvöld til Amsterdam, svo til Barcelona og ætlum að dunda okkur þar í faðmi fjölskyldunnar (Ellu) í viku. Hitta tvo nýja fjölskyldumeðlimi í fyrsta skiptið og skála fyrir ömmu gömlu sem ætlar að dansa inn í sjötugsaldurinn:)

Knús og kossar til ykkar allra.
Ella, Konni og Mikael Tumi

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

úti er ævintýri

Þetta er síðasta vikan okkar í Hyderabad. Ég veit ekki hvort við munum koma hingað aftur, Hyderabad hefur ekki skapað sér nafn sem vinsæll ferðamannastaður en hver veit nema það verði tilefni til að koma hingað aftur vegna vinnu. Við höfum oft talað um það að það væri gríðarlega gaman að koma hingað eftir 10 ár og sjá breytinguna á borginni. Borgin stækkar ört og það er mikið verið að byggja af stórum og glæsilegum skrifstofu byggingum uppi í HiTech city og Gatchibowly en í þessum hverfum má finna stóru IT fyrirtækin og fjármálafyrirtækin. Af öllum hótelunum sem er verið að byggja má ímynda sér uppbygginguna á næstu árum, Marriott er að byggja held ég 2 ef ekki 3 í viðbót við það eina sem er fyrir og Novotel er að byggja amk. eitt ef ekki tvö í viðbót.

Sonata er að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar ekki langt frá HiTech city. Það hefði verið snilld að vinna þar uppfrá en öðruvísi upplifun auðvitað en að vinna hérna niðurfrá í það sem fer að vera gamli hlutinn af borginni. Þetta svæði sem skrifstofan mín er á var og er enn miðborgin ef svo má kalla þó svo kaffihúsin, göngugöturnar og torgin þvælist ekki beint fyrir manni. Flugvöllurinn var hérna utar í götunni en nú er búið að opna Frankfurterinn út í Shamsabad.

Eins og það hefur verið gaman að fylgjast með íslandi úr fjarlægð síðust mánuði þá verður gaman að fylgjast með Indlandi á næstu árum. Bara ef þeim tekst að uppræta spillinguna sem er landlæg hérna í flest öllum stéttum og byggja upp 'infrastructurinn' (íslenskt orð óskast) þá þróast hlutirnir hratt.

Við fórum á kynningarfund hjá útflutningsráði áður en við komum hingað út sem bar titilinn 'Indlandsglugginn er opinn núna', það er nokkuð ljóst að tækifærin eru næg fyrir þá sem eru til í slaginn. Tökum sem dæmi bara búðareigendur, kaffihús, matsölustaði og fleira þegar almenningur hér fer að hafa meiri pening á milli handanna. Svo ekki sé talað um IKEA og BYKO. Ég vona bara að Indverjar hafi vit á því að rækta og snobba fyrir eigin menningu og hönnun en fylli ekki öll götuhorn af amerískum og evrópskum vörumerkjum. Sérstaklega hér í hyderabad þá snobba menn fyrir öllu sem ammerískt er og skilja ekki þegar ég fussa og sveia yfir því. Þetta er ekki ólíkt því sem var heima, hver hefur ekki heyrt einhvern segja með merkisvip "já já hann Siggi hann lærði í ameríku".

Það þykir gríðarlega fínt að vera sigldur og hefur mikið verðmæti ekki bara á ferilsskránni heldur einnig þegar kemur að heimanmund. Sigldur maður á von á hærri heimanmund, spurningin er hvort sigld kona komi með minni heimanmund?


Ég spurði hann Pankaj sem vinnur með mér um daginn hvort fólk hér væri ekkert að horfa til þess að fara til Japan eða Kína í nám í staðinn fyrir ameríku. Hann var ekki lengi að svara því og sagði að Indverji gæti ekki lifað af í Japan, það væru tvær ástæður fyrir því:
a. Japanir eru svo stundvísir
b. Indverji myndi svelta í Japan

a er alveg rétt hjá honum, Indverjar verða seint frægir fyrir stundvísi. En b? Báðar þjóðir éta hrísgrjón í flest mál, en hins vegar veit ég ekki hvort það fáist dahl í Japan. Menn segja að svo lengi sem þjóðin eigi nóg dahl þá deyr enginn úr hungri.

Já þetta eru ljúfsárir dagar. Við fljúgum frá Hyderabad á föstudagskvöldið. Erum svona rétt byrjuð að pakka og erum í samningaviðræðum við flutningsaðila. Það er svolítil íslandsstemmning í þessu fyrirkomulagi hjá okkur, eða kannski Siggu-stemmning:)

Eins og allir lenda í sem flytja til Indlands þá tekur það aðeins á þolinmæðina. Ekki bara að eiga við (þjónustu)aðila til þess að halda vatni, rafmagni, interneti, sjónvarpi og heimilstækjum gangandi heldur einnig í vinnunni að eiga við hugsanagang sem er ekki eins og maður á að venjast. Stundum finnst mér ég hafa breyst í gamla gráhærða kennslukonu í lok dags sem heldur uppi falska brosinu til að hylja pirringinn á meðan gráu hárin læðast fram undan ömmuspennunum.

En fólk er duglegt, og er tilbúið til að vinna mikið og eins og alls staðar í heiminum er hægt að gera ótrúlega hluti með rétta fólkinu.

En ég á eftir að sakna Indlands mikið. Og er pínu hrædd um að okkur fari að leiðast eftir nokkrar vikur heima svo í guðana bænum komið í heimsókn til okkar annað slagið!

Nýtt heimilisfang okkar er:
Álfatún 12
200 Kópavogur
Ísland

Sjáumst eftir rúmlega viku á Íslandinu góða. Hjá litlu þjóðinni sem nær því ekki einu sinni að fylla eina Indverska borg, varla bæ. Meðalstórt þorp kannski. En er sjálfstæðari en indverska beljan sem röltir um götur Hyderabad til þess að drepa tímann.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Heimanmundurinn

Það er ágúst árið 2008. Það er IT sprengja í Hyderabad, konur sem karlar flykkjast til stóru IT fyrirtækjanna sem þrífast á því að enn er vinnuaflið ódýrara en á vesturlöndum. Konur vinna við hlið karla og eiga að vera með svipuð laun þó svo mig gruni að það sé einhver munur.

Í Hyderabad tíðkast að gefa heimanmund. Þetta er gömul andstyggileg hefð sem á flestum stöðum er búið að leggja niður en er enn mjög ríkjandi á þessu svæði, í öllum stéttum. Heimanmundur getur þýtt ýmislegt en alltaf er heimanmundur greiddur af foreldrum konunnar. Eigandi Taj Krishna og Daj Deccan hótelanna í Hyderabad fékk þau sem heimanmund frá tendó, landeigendur gefa mangóekrur í heimanmund, hjá lægri stéttum eins og mörgu þjónustufólki er þetta lágmark 2 lakkar eða um 400 þúsund IKR sem er gríðarleg upphæð fyrir þetta fólk.

Í þeim tilvikum sem tengdaforeldrar konunnar eru anstyggilegir, þá hirða þeir allan heimanmundinn. Í tilviki Mamöthu þá greiddu foreldrar hennar 2 lakka með henni, ásamt alls kyns húsbúnaði og raftækjum. Þetta fór allt saman til tendaforeldranna og ekki króna til nýju hjónanna. Auk þess flutti hún inn til þeirra auðvitað og sér þar um heimilið. Svo þau fengu (keyptu) í raun ókeypis húshjálp, sem var greitt með í þokkabót.

Þegar heimanmundurinn fellur á eindaga kemur stundum upp úr krafsinu að foreldrar konunnar hafa ekki burði til að greiða heimanmundinn. Mér skilst að það sé nokkuð algengt að í þeim tilvikum að hin nýgifta fremji sjálfsmorð, eða þá að tengdaforeldrarnir nýju myrða hana. Grey konan lendir á milli foreldra sinna og nýju tengdó og er eina fórnarlambið í málinu.

Nú ertu að hugsa, "þetta er væntanlega bara í lágstéttunum". En mér varð hugsað aftur til heimanmundsins í vikunni þegar félagi minn á skrifstofunni tilkynnti okkur öllum að það væri búið að ganga frá kvonfangi fyrir hann. Það var búið að taka óvenju langan tíma því stjörnurnar pössuðu aldrei saman hjá honum og kandídatnum. En nú er þetta loksins komið sem er frábært því þetta er alveg frábær strákur. En.. hann tilkynnti okkur að þar sem hún á 3 systur, þá munu foreldrar hennar ekki geta greitt heimanmund. Sem honum fannst svosum í lagi þar sem hún vinnur fyrir sér.
Ég óskaði honum auðvitað til hamingju og sagði að það færi frábært að sleppa þessum heimanmund enda væri hann gríðarlega móðgandi fyrir konuna.

Það sló þögn á hópinn.

Uhhh. Sko, konan vinnur fyrir sér, hún á eftir að ganga með börnin þín, hún á eftir að ala þau upp, elda, þrífa og allt það... en samt þarf að greiða með henni? Þetta er auðvitað móðgandi.

Enn meiri þögn.

Mér tókst að slá þessu upp í grín með því að láta mig hverfa bak við næstu mannesku og segjast ekki vera á staðnum.

En eins og þið heyrði er þetta ennþá viðkvæmt mál, amk í samræðum milli konu og karla. Ef ég spyr stelpurnar eru þær auðvitað allar á sama máli, þetta er móðgandi og algerlega úrelt.

Svo. Stundum þarf maður að læra að þegja en stundum er best að segja bara það sem manni finnst.

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Hvíti hjálparinn

Lisa vinkona okkar frá Bandaríkjunum býr hjér ásamt sínum ekta manni Sudheer en hann vinnur fyrir UBS. Þau komu til Hyderabad á svipuðum tíma og við og eru alveg frábær. Sudheer er fæddur og uppalinn svona fyrripart ævinnar í Indlandi en flutti svo til bandaríkjanna á unglingsárum þar sem þau kynntust.

Lisa er kennari að mennt og er lengi búin að vera að leita að vinnu en engri venjulegri vinnu. Kennarastarfið er yfirleitt ekki vel borgað, hvað þá á Indlandi svo vinnan var ekki til að auka á tekjur heimilisins. Hún fann loksins draumastarfið en það er lítill skóli fyrir börnin sem búa í bláu plastpokatjöldunum. Þetta eru mjög fátæk börn og góða málið er það að þeim er boðið uppá smá menntun. Hins vegar er ekki mikil hvatning, það er engin skólaskylda og foreldrarnir horfa frekar á að koma þeim í vinnu en að senda þau í skóla.

Þetta er víst frekar skrautlegt, húsnæðið er nýtt en lyktin og skíturinn upp um alla veggi er víst krefjandi. Börnin eru um 80 í bekknum og Lisa er að reyna að kenna þeim ensku en þau tala bara telegu. Sudheer gerir bara grín að henni og kallar hana hvíta hjálparann:) Enda færir hún þeim liti og stílabækur sem þau fá ekki enda eru þau frekar vön að leika ser með draslið á götunni.

Ég er svo stolt af henni því eins og þetta hljómar og er göfugt þá er þetta gríðarlega kerfjandi. Hræðslan líka við sjúkdóma er til staðar en svo líka bara lyktin og skíturinn en líka sorgin við að horfa uppá þessa krakka.

Svo þetta blogg er tileinkað hvíta hjálparanum henni Lisu:)

mánudagur, 11. ágúst 2008

Hyderabadísk helgi að baki

Helgin okkar var mjög indversk, mér datt í hug að deila henni með ykkur:

Föstudagskvöld:

Drykkjarvatnslaust, vatnsstrákarnir komu ekki alla vikuna.
Netlaust. Eftir eina og hálfa viku tókst Ellu að kaupa áfyllingu á netreikninginn. En netið virkar auðvitað ekki.
Það er búið að loka símanum hans Konna
Talvan hans Konna er biluð (líklega út af 8 mánuðum af óstöðugu rafmagni)
Síminn hennar Ellu er enn í viðgerð. 3 mánuðir eru liðnir. Guarantee að hann verði til á Laugardag.
Það er rigning.


Laugardagur:

Konni hringdi í Tata Indicom til að koma að laga netið. Kemur í dag, 100% guarantee. Enginn kom.
Vatnsstrákarnir komu, nú er drykkjarvatn í boði.
Það er ekkert heitt vatn í íbúðinni, Ella fór í kalda sturtu, Mikael slapp við kvöldbaðið. Konni þreif sig ekki neitt.
Það rigndi allan daginn.


Sunnudagur:

Tata Sky inneignin rann út, við skuldum 50 ISK. Ekkert sjónvarp. Við fórum í 8 búðir til að kaupa áfyllingu, engin átti áfyllingu.
Surya spurði hvort Tata Sky væri lyf.
Það hætti að rigna.
Ennþá ekkert heitt vatn í boði.
Ella fór í kalda sturtu.
Mikael fór í stutt kalt bað.
Konni þreif sig ekki neitt;)
Lakshmi kom ekki að þrífa, allt var skítugt, ekkert hreint leirtau í boði (við nennum auðvitað ekki að vaska upp lengur)
Skjárinn á tölvunni Ellu fór að blikka bláskjá. Hún var tekin úr sambandi með hraði.


Þeir sem þekkja okkur Konna vita að við erum ekki þolinmóðasta parið á jarðríki, en sem merki um hvað við erum orðin vön því að búa á indlandi þá hlógum við að þessu öllu saman:)

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Blog í boði Mac

Hefur þú einvherntíman þurft að opna .iso image? iso skrár eru oft notaðar til að geyma backup af cd/dvd, sem er hentugt til að senda cd/dvd yfir hafið í gegnum angalanga internetsins (með smá dash af þolinmæði).

Ef þú ert með windows þá þarftu að hlaða niður einhverju tóli til að opna þessar skrár, svo ég fór auðvitað á stúfana að finna sambærilegt fyrir makkann þó svo ég sé líka að keyra windows á makkanum (en bara í neyð).

Leitarniðurstöður sýndu að auðvitað þarf ekkert neitt tól, Finderinn í Makkanum styður þetta beint svo eina sem þarf að gera er að þrýsta staðfast tvisvar á músina og sem töfrum líkast opnast skráin.

Ég hugsaði mé mér, þetta er snilld, ég þarf að blogga um þetta...

Þetta blog var í boði Ellu Makkahnakka, ef þú ætlar að fá þér nýjan lappa, fáðu þér Makka!

miðvikudagur, 6. ágúst 2008

Og dagskráin heldur áfram

Við biðjum áhorfendur um að afsaka biðina, dagskrárstjórar brugðu sér úr hlaði en vegna tæknilegra örðuleika var ekki unnt að hefja dagskrána á áætluðum tíma.

Við erum ekki með neitt net heima. Velkomin til Indlands:) Það var reyndar frábært að koma heim eftir tveggja vikna flakk. Ferðin gekk alveg meiriháttar vel og myndirnar skila sér vonandi á myndasíðuna okkar í vikunni með smá ferðasögum.

Það er alltaf skemmtilegt að bæta nýjum asíulöndum á kortið, hvert og eitt er einstakt en asískt og það er gaman að bera þau saman. Beijing stóð algveg upp úr enda höfum við hvorugt komið til Kína sem er töluvert þróaðara en mörg önnur asíulönd. En það sem stendur eftir er minningin um gamalt og nýtt stórveldi. Sagan er svo áþreifanleg í Beijing en það sem gerir hana líka einstaklega skemmtilega heim að sækja er að það er hægt að eyða morgninum í mollum að skoða alla nýjustu tísku í glæsilegum nýjum byggingum en rölta svo eða taka taxi til að eyða hádeginu eða síðdeginu í 600 ára gömlum 'Hutongs' sem eru gömul hverfi með lágreistum byggingum í gömlum kínverskum stíl. Meira um það síðar.

Þegar maður ferðast til margra landa er gaman að bera saman fólkið og ferðamátann. Í Beijing er lítil talva fyrir framan öryggiseftrilitið þar sem þú getur gefið álit þitt á hversu fljótt og góð þjónustan var við passport tékkið. Þegar við komum til Indlands hófst biðin í löngum biðröðum að eftirliti og við tók gamla tilfinningin að þú værir glæpamaður í búningi saklausrar konu í viðskiptaerindum með Konna og Mikael sem 'props' til að gera gervið trúlegra.

Þegar út var komið fór ekki á milli mála að við vorum komin til Indlands. Blessunarlega tókum við monsoon með okkur frá Thailandi en við tóku köll og flaut sem tilheyra indverskri umferð. '.. feels like home':)

Litla indverska fjölskyldan okkar tók vel á móti okkur. Surya tók skælbrosandi á móti okkur á flugvellinum. Ég elska að hafa einkabílstjóra. Lakshmi mætti morguninn eftir að elda handa okkur morgunmat. Og um hádegið hringdi Mamatha og tilkynnti að hún hefði komið kvöldið áður að elda hrísgrjón, dahl og ciabatti sem mætti finna í ísskápnum. Við eigum svo sannarlega eftir að sakna þeirra þriggja! Mamatha er núna að reyna að sannfæra okkur um að búa á indlandi þangað til Mikael verður 14. Þá meigum við flytja heim:)

Meira síðar, ekki gefast upp á okkur. Það eru tvær og hálf vika eftir af indverskum sögum og blaðri.

Stay tuned...

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Afsakið hlé

Við erum í kína. Og förum svo til Thailands. Komum 'heim' 28. Júlí.

föstudagur, 11. júlí 2008

Skrásett

Já, við erum búin að láta skrásetja okkur. Komin með dvalarleyfi að mér skilst. Ég verð þó að viðurkenna að ég nennti ekki einu sinni að lesa stimpluðu pappírana sem við fengum eftir 6 klst dvöl á lögreglustöðinni í dag.

Við komum loksins um að verða ellefu, vopðum öllum nauðsynlegum gögnum. Uppúr tólf komumst við að til að sýna þeim skjölin, en neibb, myndirnar voru ekki heftaðar við. Mohan stökk og reddaði því, en neibb, það vantaði afrit af mínu vegabréfi í umsókn strákanna (ekki að það stóð neinstaðar að það þyrfti), og Mohan stökk og reddaði því. Og loksins skrifaði einhver nafnið sitt á umsóknina eftir smá múður.

við fórum að næsta borði til að láta annan mann kvitta. Hann vildi fá að tala við eigandann af húsinu okkar. Þrátt fyrir leigusamning, rafmagnsreikning, símreikning og staðfestingu frá Sonata að ég ætti heima þarna í þessu húsi. Við sluppum við það að setja númerið 'hans' á leigusamninginn. Sem var auðvitað ekkert númerið hans, við erum ekkert með númerið hans. En símanúmerið 'hans' átti að vera á samningnum. Maðurinn endaði á því að kvitta á mörgum stöðum og stimpla mismunandi stiplum á marga staði.

Ég sá fram á að komast út fljótlega.

Þá hófst biðin eftir niðurstöðuum. Við biðum í næstum 3 klst eftir því að eitthvað gerðist i þeim málum og vorum hreinlega að missa vitið. Loftið á biðstofunni var kæfandi, allt var skítugt og einu upplýsingarnar sem við fengum var að þetta myndi gerast eftir 10 mín. Sem voru ansi lengi að líða. Mín fór að missa þolinmæðina þegar ég fór fram og komst að því að 'þeir' væru i matarhléi. Grey mennirnir verða að borða auðvitað, en ég þurfti ekkert að vita af því.

Loksins kom maður inn í biðstofuna, kallaði 'icelandic residents' og ég hélt að málið færi leyst. Neibb, við fengum vegabréfin okkar og áttum að bíða lengur.

Loks voru allir kallaðir upp, við nafnakallið áttum við að fara í röð upp við skítugan vegginn. Eins og glæpamenn. Nú héldum við inn til lögreglustjóra. Sem fór aftur yfir pappírana, fletti fram og til baka. Spurði spurninga en kvittaði loks á umsóknirnar.

Þá hófst önnur bið.

Verið var að undirbúa fleiri skjöl.

Loks vorum við kölluð upp, aftur að öðrum manninum. Sem fletti blöðunum, færði til blöð, kvittaði og svo kvittuðum við. Og við máttum fara.

Út fórum við, tveimur blaðsneplum ríkari á mann. Við munum gæta þessarra snepla gríðarlega vel á næstunni, ef ekki bara ég læt sauma þá innan á fötin mín til vara.

Eftir stendur minningin um skít, hlandlykt, skít, fullt af fólki og hrikalega hrokafulla starfsmenn lögreglunnar. Andrúmsloftið þarna var ótrúlegt, starfsmennirnir voru kóngar í ríki sínu og umsækjendur réttlausir aumingjar frá útlöndum. Ef þeir voguðu sér út úr 'biðsalnum' þá var þeim sópað inn aftur eins og rollum. Við fengum undanþágu eftir að Konni sagði þeim að það kæmi ekki til greina því Mikael fann blett til að leika sér á. Þeir svo ekki mikið sem litu við tilburðum Mikaels til að segja hæ eða bæ, krakkar voru svo mikið fyrir þarna, en þurftu samt greyjin að vera á staðnum.

Nú ertu örugglega a hugsa, "Ella, þú ert á Indlandi", og það er alveg satt hjá þér. Það má búast við öllu, og þetta kemur ekki mikið á óvart svosem. En þetta er ögn íktara en ég átti von á. Í nokkra klukkutíma í dag fórum við að hugsa um hvernig það væri að vera flóttamaður, óvelkominn, fyrir, fastur, skítugur,... úff mig hrillir við tilhugsunina.

Það var ekkert smá gott að koma heim í Whisper Valley í dag:)

En þetta hafðist!!! jei og við erum á leið í fríið á morgun. og úff ætli ég fari ekki bara að sofa.

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Að láta skrásetja sig

Við þurfum að skrá okkur inn í landið. Við áttum auðvitað að vera löngu búin að því en nú er þörf því við getum lent í vandræðum að komast inn aftur ef við gerum þetta ekki núna.

Við byrjuðum í gær. Fundum skráningarskrifstofuna loksins um hálf tvö en hún er staðsett í gömlu borginni sem er töluvert ólík þeirri Hyderabad sem við erum í dags daglega. Aðallega eldri, eins og að koma 100 ár aftur í tímann.

Við vorum vopnuð Mohan til að hjálpa okkur við að túlka, og skilja, og bjóða mútur ef þörf væri á. Mamöthu til að passa Mikael sem þarf víst að vera viðstaddur ef við fáum samþykki og Surya til að keyra. Skilaboðin voru þau að eyðublöð til skráningar eru afhent eftir þrjú. Milli þrjú og fimm.

Konni fór aftur milli þrjú og fimm til að sækja eyðublöðin sem lágu í stafla þá á borðinu í afgreiðslunni. Eitt afrit, hann átti að ljósrita hin 17 sjálfur.

Auðvitað þurfti alls kyns fylgiblöð, eftir vinnu í gær náði ég að kurla saman öllu sem ég vonaði að myndi duga. Blaðabunkinn innihélt amk. allt sem þurfti til að fá VISA á sínum tíma svo þetta hlaut að duga.

Við lögðum af stað klukkan átta í morgun. Komum að verða níu að skráningarskrifstofunni. Á móti skrifstofunni voru tvær ljósritunarskrifstofur sem sérhæfa sig í að aðstoða umsækjendur. Á götunni fyrir framan kom gamall múslimi sér fyrir við enn eldri ritvél. Han bíður uppá þjónustu við að vélrita umsóknir. Það var ekkert rafmagn í hverfinu og við áttum eftir að ljósrita eitt eyðublaðið, svo við fórum í næsta hverfi, og svo næsta hverfi og þá fundum við rafmagn.

Við Mikael komum okkur fyrir í biðstofunni á meðan Konni fór í banka að borga sekt (sem þarf að greiðast þegar maður skrásetur sig of seint) og Mohan fór að sækja 'hefti'. Ég ætla aldrei aftur að hlusta á væl yfir því að bíða í biðsölum á vestrænum flugvöllum sem eru jafnvel með legubekkjum, matarsjálfsölum, börum, veitingastöðum, sjónvarpi og ég ég veit ekki hvað.

Biðsalurinn
Biðsalurinn var lítið herbergi, fullt af stólum. Allan hringinn þar sem stólar voru við vegginn var dökkur hringlaga skítablettur eftir alla hausana sem hafa hallað sér upp að veggnum í langri bið eftir að lífið liði hjá. Skítugur vatnshani var í miðju herberginu, rimlar fyrir gluggum og gamalt lítið sjónvarp uppá vegg. Ég þurfti á klóið og vippaði mér í bakherbergið. Klósettið var allt klístrugt, skítugt, lyktandi og bara ógeðslegt í alla staði.

Það tók Konna 2 klst að fá að greiða sektina. 4 biðraðir og 2 stimpla á hverja umsókn og kvittun. En það tókst.

Mikael var ótrúlega sáttur við þetta allt saman. Þarna voru tvær litlar stelpur á svipuðum aldri sem hann vingaðist við og það nægði mínum. Mamman var öllu stressaðari enda allt svo ferlega skítugt þarna.

Það var áhugaverður hópur af fólki á biðstofunni. Ungur maður, hávaxinn í dæmigerðum múslimabúningi, skyrtu niður að hnjám og með hvítan koll kom að tali við mig. Spurði hvort ég væri frá Rússlandi. Hann var frá Afganistan. Ég stóð mig að fordómum... Afganistan, gæti hann verið hriðjuverkamaður?... skammaði mig svo í huganum og spjallaði nokkuð við hann. Hann er að læra hér stjórnmálafræði og hefur ferðast um víðan völl eða til 18 landa. Talaði rólega með ögn starandi augu en kurteis í alla staði.

Mohan sá um að fara yfir fylgiskjölin með srkásetjaranum og okkur vantaði víst ýmislegt. Rafmagnsreikning sem er þó ekki með nafninu okkar á né húsnúmeri. Þeir vilja bara rafmagnsreikning. Samninga fram og til baka upp og niður um allt milli himins og jarðar.

Ég vildi fá betri útskýringu á hvað vantaði uppá þrátt fyrir þrjú bréf frá Sonata og eitt frá Calidris og fékk að tala við yfirmanninn. Áður en röðin kom að mér öskraði hann nokkur vel valin orð yfir tvo afríkubúa við hliðina á mér. Þeir komu víst með leigusamning sem þeir höfðu gert við látna konu. Yfirmaðurinn hótaði að henda þeim beint í fangelsi. Nokkrum sinnum, og lét nokkrar svívirðingar fylgja.

Reynsla mín af Whisper Valley Owners Association fundinum kom sér vel. Ég talaði rólega, hægt en nógu hratt svo ég kæmist að. Brosti samt ekki því yfirmaðurinn hafði skammað afríkubúann fyrir það rétt áður. Passaði að láta hrokann í honum ekki æsa mig. Ég reyndi að útskýra að ég þyrfti góðar upplýsingar því ég væri að yfirgefa landið á laugardaginn en okkar manni var skítsama, það var sko hreint ekki hans vandamál. Sem það var svosem ekki.

Hann var svo yndislega Indverskur. Bréfið skrifað undir af Calidris um veru mína hér var sko enginn samningur, hann var bara nokkrar línur og það vantaði 'terms and conditions'. Ég þorði varla að segja honum að það væru engar 'terms and conditions'. Ég er bara íslendingur að vinna tímabundið verkefni fyrir íslenskt fyrirtæki á Indlandi. Það eru engar 'terms and conditions', mér var bara treyst fyrir verkinu og send í næstu vél út.

Klukkan er að verða níu og hér sit ég í básnum mínum að bíða eftir restinni af samningunum sem ég þarf frá Sonata. Í fyrramálið, klukkan níu eigum við stefnumót við skrásetjarann aftur, og þá vonandi með nægar upplýsingar.

Þreytt Elín Elísabet Torfadóttir talar úr básnum sínum

laugardagur, 5. júlí 2008

Hreyfing fyrir upptekna viðsiptamenn og konur

Við Mikael fórum út að leika í morgun eftir morgunmatinn sem hún Lakshmi eldaði handa okkur. Nýbreytni sem hún tók uppá um síðustu helgi, algerlega óumbeðin okkur til mikillar ánægju.

Við röltum nokkrar götur og enduðum í rólugarðinum að róla. Ég rak augun í mann um 35+, í röndóttri skyrtu, joggingbuxum og hlaupaskóm röltandi framhjá, svona frekar hratt og talandi í síman. Mér var ekki alveg ljóst hvort hann væri í morgunleikfimi eða hvort hann væri bara að flýta sér. Það að hann var að tala í símann ruglaði líka myndina.

Stuttu seinna labbaði hann aftur framhjá. Og aftur. Og aftur. Mér var nú orðið ljóst að þetta var morgunleikfimi. En alltaf talaði hann í símann.

Ég hef alltaf áhyggjur af heilsu bróður míns sem eins og margir, vinnur of mikið og hreyfir sig of lítið. Þarna er tækifærði Rósi bró, taka nokkur struns Daltúnið fram og til baka yfir morgunfundinum á morgnanna, eða bara sæbrautina. Sjáið þetta ekki fyrir ykkur? Svo slást kannski fleiri í hópinn, og götur fyllast af jakkafatamönnum og konum, í íþróttaskóm, talandi í símann.
Ég sé fyrir mér að stærri fyrirtæki myndu láta útbúa 'strunsganga' þar sem fólk gæti strunsað fram og til baka án þess að þurfa að klæða sig út á veturnar. Fólk gæti leitað til Japans þar sem fréttir hafa borist af öskurherbergjum og kariokee herbergjum innan fyrirtækja.

Ég er sannfærð um að þetta myndi skila sér. Losa um stressið á strunsinu, ná hjartslættinum aðeins upp, rúlla blóðinu nokkra hringi um æðarkerfi líkamans og losa svitann úr svitaholunum. Fara svo aftur að vinna.

Elín Elísabet Torfadóttir talar frá Hyderabad

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Kaupmaðurinn á horninu

Þegar við bjuggum á Sólvallagötunni (forðum daga) kíktum við oft í Kjötborg á Ásvallagötunni ef okkur vantaði mjólk eða eitthvað smáræði. Kjötborg er ein af þessum fáu litlu hverfisbúðum í Reykjavík sem eru enn á lífi en þeim fer ört fækkandi. Hún minnir mig á það hvað það er gott að búa í vesturbænum:)

Kjötborg er í eigu tveggja bræðra. Iðulega stóðu þeir á spjalli við fastakúnnana þegar maður kom inn um þau mál sem voru heitust á hverjum tíma. Ef maður spurði um eitthvað sem var ekki til þá var svarið alltaf "komdu aftur á morgun vænan og ég skal hafa þetta til handa þér". Einu sinni komum við mamma þarna þegar annar bróðirinn var að loka, hann kallaði yfir götuna, "vantaði þig eitthvað gæskan?, komdu inn, mér liggur ekkert á". Þetta er snilld, einu sinni hljóm Maren úr miðjum pizzubakstri að redda einhverju, um leið og hún kom inn askvaðandi heyrðust "hvað vantar þig væna, þú ert greinilega á hraðferð, við skulum redda þessu strax".

Ég fýla svona, þetta er svo heimilislegt eitthvað. Þeir líka skrifa hjá fólki, en það er nú betra að borga bara. Með seðlum, því þeir eru ekkert hrifnir af því að strauja kortið fyrir klink.

Ég fór í fiskbúðina á road number 2, Banjara Hills í fyrradag að kaupa nýja síu í fiskabúrið mitt því það hreinsast ekki nógu vel. Ég var ekki með seðla á mér, bara kort. Það var ekki mikið vandamál. "no problem, you just pay me later". Og það í miðri rúmlega 7 milljón manna borg. Ég sagðist auðvitað koma strax á morgun; "no problem, dont come for me, just come next time you are passing by".

Kaupmanninn á horninu má finna víða.

Ella

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Singapúr-Beijing-Tioman

Þá erum við loksins búin að bóka fríið okkar. Við fljúgum út 12. júlí til Singapúr, ætlum að anda að okkur ferskleikanum, hreinleikanum og smartheitunum í nokkra daga. Þaðan förum við til Beijing til að skoða kínamúrinn, torg hins himneska friðar og fleira. Ég efast ekki umm að við finnum nóg að dunda okkur við þar.

Frá Beijing fljúgum við aftur til Singapúr og förum þaðan til Tioman í Malasíu. Tioman er lítil paradísareyja nálægt Singapúr, hluti af myndinni South Pacific var tekin þarna ef þið hafið séð hana. Ró og friður, pálmatré, frábært dýralíf á landi og sjó. Hver þarf meira?

Svo það verða þrjú ný lönd á kortið hjá Konna og Mikael Tuma á þessum tveim vikum, eitt hjá mér því ég hef komið bæði til Singapúr og Tioman í Malasíu. Fyrir tæplega tíu árum síðan fór ég þangað með líffræðinni í meiriháttarferð, við fórum þá til Singapúr, Malasíu og Indonesíu. Afhverju að þræða sömu staðina aftur? Afhverju ekki, Singapúr er frábær til að stoppa í nokkra daga, og Tioman er hreint yndi ef manni langar í rólegt strandalíf á milli pálmatrjánna. Og hvað gerir maður ekki fyrir Konna;) Það er búinn að vera brandari hjá okkur hérna úti að hann vill alltaf fara á staði sem ég hef séð eða er að fara að sjá.

Þessi ferð verður alveg frábær, smá saga og menning fyrir Konna, dýralíf fyrir Ellu, strönd fyrir Mikael og verslun, veitingastaðir og kaffihús fyrir alla.

Það verður frekar fyndið fyrir Mikael að eiga allar þessar myndir af sér á merkum stöðum um allan heim, sérlega á kínamúrnum. Eftir þessa ferð hefur hann ferðast um þrjár heimsálfur og níu landa áður en hann verður tveggja ára. Fyrir þá sem hafa séð myndina Amelie, þá datt mér í hug garðálfurinn... :) Fyrir þá sem ekki hafa séð Amelie, þá legg ég til að þið rennið við á leigunni í kvöld og grípið hana með.

miðvikudagur, 25. júní 2008

All roads good in Hyderabad No!

Ég hef oft sagt ykkur frá hinni frábæru Suryensku, þ.e. enskunni hans Surya enda höfum við átt mörg frábær samtölin enda eyðum við töluverðum tíma saman í bílnum við tvö.

Ég er alltaf að reyna að kenna honum betri ensku, en stend mig alltaf að því að tala sömu einföldu enskuna og hann til að einfalda málið því of mörg auka orð eins og 'there are', 'it is' osfrv gera hana bara erfiðari til skilnings.

Film Nagar Temple Road er gata sem ég keyri á hverjum degi á leiðinni heim. Vegurinn eins og margir aðrir í Hyderabad er illa farinn og búinn að vera hálfkláraður síðan við komum. Surya var að kvarta undan þessu í gær: "All roads in Hyderabad good no!". Og það er svo dásamlegt hvernig hann segir þetta með alveg extra áherslu á no! með smá nefhljóði í o-inu. Svo fylgdi "all roads in india good no!" :)

Annars er rok og rigning úti. Hressandi!